Eru Samtök iðnaðarins trúverðug í álumræðunni og fyrir hvað standa þau?

HAGFRÆÐISTOFNUN Háskóla Íslands (HHÍ) hefur reiknað út að árlegar tekjur Hafnarfjarðar aukast um 200 milljónir verði af stækkun í Straumsvík. Samtök iðnaðarins (SI) reikna sama dæmi og fá út 5 sinnum hærri upphæð. Það fer ekki hjá því að maður velti fyrir sér greind þeirra sem starfa hjá HHÍ og hvort SI séu trúverðug.

Tvisvar sinnum gekk fyrirtæki, sem ég starfaði fyrir í þessi samtök. Fyrst fyrir ca 30 árum. Þá hétu samtökin Félag íslenskra iðnrekenda og var stjórnað af iðnrekendum sem börðust fyrir hagsmunum félagsmanna sinna. Við hættum í félagsskapnum, þegar hagsmunir stærra fyrirtækis voru settir ofar okkar. 15–20 árum síðar vorum við hvattir af jakkafatastrákum til að ganga aftur í félagið. Gallinn þá var að við höfðum stækkað mikið og félagsgjöldin voru hlutfall af veltu. Við fengum gott tilboð og gengum í félagið. Fljótlega mat ég það svo að þrátt fyrir afsláttinn væru félagsgjöldin hærri en ávinningurinn.

Nú er einn jakkafatastrákurinn orðinn framkvæmdastjóri SI með marga starfsmenn í vinnu. Reksturinn hefur alltaf verið dýr. Alcan er með mikla veltu. Það fer því ekki hjá því að maður spyrji sig, hvað Alcan greiði mikið í félagsgjöld fyrir og eftir stækkun. Skyldi það hafa einhver áhrif á baráttu SI fyrir stækkun í Straumsvík?

Nú er Alcoa-Fjarðaál komið með einn mann í stjórn SI. Skyldi fjöldi atkvæða enn vera í réttu hlutfalli við félagsgjöldin? Sé svo er ljóst að erlendir auðhringir geta sett inn leppa og yfirtekið SI.

Hvernig sem það nú er er ljóst að SI hafa algjörlega misst sjónar á hagsmunum íslensks iðnaðar. Hagstæðar lóðir, skortur á vinnuafli og háir vextir hafa lengst af staðið vexti og uppbyggingu fyrir þrifum. Stóriðjuþenslustefnan hefur aukið á þann vanda. Gegn henni ættu SI að berjast en ekki fyrir stækkun í Straumsvík. Ég hvet félaga í SI til að skoða hvort SI vinni í raun þeim í hag og hvort ekki sé komið nóg af ruðningsáhrifum.

Illskiljanlegt er að nú hafa verkalýðsfélögin í Hafnarfirði stillt sér upp við hlið auðvaldsins og hvetja til stækkunar. Hafa þau ekki fengið nóg af því í gegnum árin að vera stillt upp við vegg í samningum við ISAL? Sagt að samþykki þau ekki þetta eða hitt verði að loka. Væri ekki nær fyrir þau að krefjast þess að staðið væri við upphafleg fyrirheit ISALS? Að arðurinn færi ekki allur úr landinu, heldur væri notaður til uppbyggingar og vinnslu verðmætari afurða úr því sem nú er flutt út sem hráefni. Einnig mætti byggja verksmiðju til endurvinnslu á áli. Það yrði grænasta ál í heimi. Í Straumsvík er góð aðstaða til að taka við efni til endurvinnslu.

Að lokum. Það er spurning hvort öll þessi umræða um stækkun í Straumsvík sé ekki ein stór allsherjar smjörklípa til að beina athyglinni frá Landsvirkjun. Hvernig kemur Landsvirkjun út úr Kárahnjúkaævintýrinu? Megum við eiga von á að auðhringirnir kaupi LV? Langt er síðan minnst hefur verið á orkuverðið. Það er næsta víst að þótt því sé haldið leyndu fyrir almenningi þá ræða álstjórarnir saman. Þeir vita upp á hár hvað er greitt í Straumsvík, Hvalfirði, Reyðarfirði og hvað þeir geta farið fram á í Helguvík, Þorlákshöfn og Húsavík, fari skriðan af stað.

Hafnfirðingar – vinir mínir – það er ykkar að stoppa þessi ósköp. Fyrir utan öll náttúruspjöllin og mengunina er verið að selja auðlind frá komandi kynslóð á verði sem er svo lágt að hinn almenni eigandi má alls ekki vita hvað það er.

Verði einhvern tímann stækkað einhvers staðar eða byggt nýtt á krafan að vera lokað útboð á orku og mengun. Stjórnvalda er svo að ákveða með tilliti til byggðasjónarmiða hvort einhverju tilboði sé tekið eða öllum hafnað.

Höfundur er verkfræðingur og vinur Hafnarfjarðar.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband